Primera Air gekk í síðustu viku frá samningum um flug frá París fyrir franska ferðaheildsala til helstu áfangastaða franskra ferðamanna á sumarmánuðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Heildarverðmæti samningana, sem gilda fyrir næsta sumar, er um fimm milljarða króna. Flugin hefjast í aprílmánuði og standa fram í október og munu tvær vélar frá Primera Air annast verkefnið. Flogið er frá París, Lyon og Nantes.

„Er þetta hluti af stækkunaráformum félagsins og nýjum verkefnum sem nú liggja fyrir eftir að búið er að samþætta starfsemi Primera Air á einum stað í Riga og félagið betur í stakk búið til að keppa á alþjóðagrundvelli. Styrkir þetta enn fremur rekstur félagsins, en félagið hefur á síðustu 2 árum bætt við sig mörgum nýjum viðskiptavinum í Evrópu og skoðar nú enn frekari stækkun flugflotans, en félagið hefur selt alla framleiðslugetu sína út árið 2015,“ segir í tilkynningu.