*

laugardagur, 27. febrúar 2021
Erlent 10. janúar 2021 16:05

Rafbíll með 1.000 km drægni

Kínverska fyrirtækið NIO, sem rambaði á barmi gjaldþrots fyrir ári, kynnti nýjan rafbíl um helgina.

Ritstjórn
NIO ET7 mun kosta á bilinu 9 til 10 milljónir króna eða 69 til 81 þúsund dollara,

Kínverski bílaframleiðandinn NIO kynnti um helgina nýjan lúxus-rafbíl, NIO ET7, sem væntanlegur er á markað í byrjun næsta árs. Samkvæmt frétt Wall Street Journal verður hægt að velja á milli þrenns konar rafhlaða en sú stærsta (150 kWh) verður með 1.000 kílómetra drægni (621 míla). Bíllinn mun kosta á bilinu 9 til 10 milljónir króna eða 69 til 81 þúsund dollara,

NIO er í harðri samkeppni við Tesla í Kína en enn sem komið er selur NIO einungis rafbíla í heimalandi sínu. Hugðist fyrirtækið sækja á Evrópumarkað í fyrra en meðal annars vegna heimsfaraldursins varð ekkert úr því. Á þessu ári stefnir félagið að því að hefja sölu rafbíla á alþjóðlegum mörkuðum.

NIO var stofnað árið 2014. Fyrir um ári síðan rambaði fyrirtækið á barmi gjaldþrots en í apríl síðastliðnum komu kínversk stjórnvöld félaginu til bjargar. Síðan hafa hlutabréf í félaginu, sem er skrá í kauphöllinni í New York (NYSE) fjórtánfaldast í verði. Er NIO nú fimmti verðmætasti bílaframleiðandi heims og verðmætari en stórfyrirtækin Daimlar AG og General Motors. Á fjórða ársfjórðungi 2020 seldi NIO ríflega 17 þúsund rafbíla sem er álíka mikið og félagið seldi allt árið 2019.

Kínverjar eru orðnir mjög stórir á rafbílamarkaðnum. Sem dæmi er fyrirtækið BYD einn stærsti framleiðandi heims á rafbílum. Fyrirtækið var stofnað árið 1995 og óx hratt fyrstu árin þegar starfsemi þess fólst aðallega í framleiðslu á rafhlöðum fyrir farsíma. Áherslur fyrirtækisins breyttust og í dag framleiðir það rafbíla, rafknúna strætisvagna, rútur og rafhjól. Berkshire Hathaway, fyrirtæki Warren Buffett, hefur meðal annars fjárfest í BYD.

Stikkorð: Rafbílar Tesla BYD NIO