Framleiðendur rafretta hafa sett fjöldann allan af nýjum vörum á markaðinn undanfarið í Bandaríkjunum.

Er það vegna þess að vörur sem settar eru á markað frá og með deginum í dag þurfa að fá heimild frá bandarískri eftirlitsstofnun, en þær sem komu inná markaðinn fyrir daginn í dag hafa þrjú ár til að fá samþykki bandarísku eftirlitsstofnunarinnar sem sér um matvæli og lyf.

Reglugerð bannar sölu án heimildar

Í maímánuði var tilkynnt um nýju reglugerðirnar, en þær banna einnig sölu rafretta til allra sem eru undir 18 ára aldri. Reynt hefur verið að tefja gildistöku reglnanna með lögsóknum og nýjum lagatillögum á þingi.

Margir smærri aðilarnir á markaðnum sem líklega tapa mest á nýju lögunum drifu í því að setja nýjar vörur á markaðinn áður en reglurnar tækju gildi.

Aldrei jafnmargar vörur markaðssettar

„Ég myndi vera hissa ef á nokkru öðru tímabili sögunnar hefðu jafnmargar nýjar vörur verið markaðssettar,“ segir Bryan Haynes, lögfræðingur hjá fyrirtækinu Troutman Sanders sem vinnur fyrir mörg fyrirtæki í geiranum.

Ekki komast allar vörurnar í hendur neytenda þó strax, því mörgum fyrirtækjum tókst að komast fram hjá reglunum með útgáfu í takmörkuðu upplagi á frumgerðum.

Reglurnar munu í fyrsta sinn setja rafrettur, ásamt vindlum, píputóbaki og vatnspíputóbaki í sama reglugerðarflokk og hefðbundnar sígarettur.