Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tilkynnti formlega um helgina að hún muni gefa kost á sér í oddvitasætið á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar sem fara fram í maí. Ragnhildur Alda mun því etja kappi við Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa um oddvitasætið en Eyþór Arnalds, núverandi oddviti, tilkynnti rétt fyrir jól um að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram um miðjan marsmánuð.

Ragnhildur Alda er fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og situr í velferðarráði, ofbeldisvarnarnefnd, aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks og innkauparáði Reykjavíkurborgar. Hún hefur meðal annars verið aðstoðarmaður rannsakenda við Háskóla Íslands, flugfreyja hjá Icelandair, innheimtufulltrúi hjá Tollstjóranum í Reykjavík og förðunarfræðingur í Body Shop.

Ragnhildur Alda fæddist í Reykjavík 30. júlí 1990. Hún er með B.Sc. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið meistaranámi í þjónustustjórnun við viðskiptafræðideild frá sama skóla.

Hún er gift Einari Friðrikssyni lækni en sonur hennar er Vilhjálmur Andri Jóhannsson.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir:

„Ég ætla að vera alda breytinga. Borgin er ein stærsta þjónustustofnun landsins en hefur fallið í þá gryfju að láta forræðishyggju móta stefnumörkun í húsnæðis-, samgöngu- og skólamálum. Sjálfstæðismenn vilja raunhæfar lausnir og raunhyggju í rekstri Reykjavíkuborgar og að þessu mun ég starfa.

Það þarf að nálgast samgöngumálin kreddulaust og innleiða snjöll umferðaljós sem munu bæta umferðarflæði allra óháð samgöngumáta og láta af fækkun bílastæða. Borgarbúum fer bara fjölgandi og við verðum að leyfa Reykjavík að stækka í takt við húsnæðisþarfir þeirra og byggja utan þéttingarreita. Það er eina leiðin til að snúa þessari lóðaskortsstefnu við sem hefur sprengt upp húsnæðisverð í Reykjavík á kostnað heimilana. Í þessu samhengi verður Sundabraut einmitt mjög mikilvæg tenging að frekara byggingarlandi.

Bregðast þarf strax við þeim vanda sem nú blasir við leikskólum borgarinnar, stytta biðlista og sinna viðhaldi skólahúsnæðis og skólalóða. Þjónusta Reykjavíkurborgar er komin í vítahring sem þarf að rjúfa. Reykjavík nútímans á að vera til þjónustu reiðubúin.”

Ragnhildur Alda hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún var varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 2015 - 2017 og sat í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, árin 2017 - 2021. Samhliða náminu var Ragnhildur Alda virk í stúdentapólitík fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta og sat meðal annars í Háskólaráði Háskóla Íslands fyrir hönd Vöku árin 2018 - 2020. Einnig stofnaði Ragnhildur Alda geðfræðslufélagið Hugrúnu ásamt góðum hópi stúdenta og sat í stjórn félagsins árin 2016 - 2018.