Hollenska sjónvarpsstöðin Nova TV var með sérstaka umfjöllun um Icesave-málið á besta tíma á miðvikudaginn. Þar var meðal annars rætt við Ólaf Ísleifsson hagfræðing og Harald Johannessen, ritstjóra Viðskiptablaðsins. Í máli hollenska sjónvarpsmannsins kom fram að fréttamenn stöðvarinnar höfðu reynt að fá viðtöl við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og alþingismenn en án árangurs. Engin vildi tjá sig um málið fyrir framan sjónvarpsvélarnar um málið, sagði umsjónarmaður fréttaþáttarins.

Að sögn Kristjáns Guy Burgess, aðstoðarmanns utanríkisráðherra, hefur ráðherra verið í fjölmörgum viðtölum undanfarið auk þess sem mikill fjöldi viðtalsbeiðna berst daglega, bæði frá erlendum og innlendum fjölmiðlum. ,,Ég held að ráðherra hafi verið í þremur viðtölum í gær. Menn eru þá bæði að spyrja um Icesave og Evrópusambandsmálið. Forræði Icesave málsins er hins vegar hjá fjármálaráðherra,” sagði Kristján. Hann benti á að viðtal við þessa umræddu sjónvarpsstöð hefði aðeins komið til greina seinni partinn á miðvikudaginn og þá hefði utanríkisráðherra verið á ferðinni til Svíþjóðar.