Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur rekið hagstofustjóra landsins, Sait Erdal Dincer. Brottreksturinn kemur eftir að hagstofa landsins birti tölur um hæstu verðbólgu í landinu í 19 ár, en hún var 36,1% á síðasta ári.

Dincer er einn af fjölmörgum sem Erdogan hefur sparkað í efnahagsþrengingum landsins undanfarin ár, þar á meðal eru þrír seðlabankastjórar frá árinu 2019.

Þó verðbólgan sé sú hæsta í 19 ár telja stjórnarandstæðingar verðbólguna enn vera vanmetna samkvæmt samantekt AFP á meðan Erdogan telur of mikið gert úr vandanum.

Erdogan hefur beitt ýmsum óhefðbundnum úrræðum í efnahagsþrengingum Tyrkja að undanförnu. Þar á meðal hefur hann lagst gegn stýrivaxtahækkunum, þvert á viðtekna venju, sem hefur átt þátt í hruni á gengi tyrknesku lírunnar undanfarna mánuði.

Verðbólga janúarmánaðar verður birt þann 3. febrúar undir stjórn nýs hagstofustjóra Erhan Cetinkaya. Áhyggjur af áreiðanleika hagtalna hér eftir koma ofan í áhyggjur af efnahagsumhverfinu almennt í Tyrklandi og viðbrögðum stjórnvalda við þeim.

Í ræðu um helgina ítrekaði Erdogan áherslu sína á að lækka stýrivexti frekar sem muni draga úr verðbólgu. Gengi lírunnar hefur fallið um yfir 50% gagnvart Bandaríkjadal í Covid faraldrinum og yfir 75% frá ársbyrjun 2018.