Svo virðist að hugsanlegum kaupendum að samheitalyfjaframleiðslu þýska lyfjafyrirtækisins Merck KGaA fari fækkandi en fjölmiðlar sögðu frá því í dag að ekkert yrði úr samstarfi indverska lyfjafyrirtækisins Ranbaxy Laboratories við einkafjárfestingasjóða um kaupin.

Forráðamenn Ranbaxy höfðu lýst yfir áhuga sínum á kaupunum rétt eins og stjórnendur íslenska lyfjafyrirtækisins Actavis. Fjölmiðlar greindu einnig frá því í gær að frestur til þess að leggja fram óbindandi tilboð í fyrstu umferð söluferilsins í samheitalyfjaframleiðsluna hafi runnið út í dag.

Samkvæmt Financial Times Deutschland munu forráðamenn Merck í kjölfarið velja út hóp af ákjósanlegum kaupendum. Talið er að verðmæti samheitaframleiðslu Merck sé á bilinu fjórir til fimm milljarðar evra.

Einkafjárfestingarsjóðir munu ekki koma að kaupum Ranbaxy Laboratories á samheitalyfjaframleiðslu Merck sökum þess að stjórnendur Ranbaxy er ekki reiðubúnir að láta sjóðina fá eign í fyrirtækinu gegn fjármögnun. Þetta kom fram í viðskiptablaðinu Business Standard.

Blaðið hefur eftir bankamönnum, sem hafa komið að viðræðum Ranbaxy við einkafjárfestingarsjóði, að þeir síðarnefndu hafi misst áhuga á að koma að hugsanlegum kaupum. Einnig kemur fram í frétt blaðsins að annað indverskt lyfjafyrirtæki, Dr. Reddy?s Laboratories, muni ekki heldur leggja fram tilboð í Merck KGaG. Í fréttinni er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni, sem er sagður þekkja vel til indverskra lyfjafyrirtækja, að ólíklegt sé að þau komi til með að ráðast í yfirtöku á samheitalyfjaframleiðslu Merck sökum þess hversu áhættusöm slík yfirtaka kynni að reynast.

Auk Actavis og Ranbaxy hefur þýska fyrirtækið Stada Arzeinmittel ásamt Mylan Laboratories í Bandaríkjunum og Teva Pharmaceutical í Ísrael verið orðuð við kaupin. Einnig er talið að einkafjárfestingarsjóðirnir Carlyle, Bain Capital, Apaz Partners, KKR & Co og Warburg Pincus sýni samheitalyfjaframleiðslu Merck áhuga.