Kauphöllin, Nasdaq OMX Ísland, hefur lokið skoðun á meintri markaðsmisnotkun á skuldabréfamarkaðnum 17. september síðastliðinn. Í þeirri skoðun kom ekkert í ljós sem benti til þess að lög eða reglur hefðu verið brotnar og er málinu lokið af hálfu Kauphallarinnar.

Á umræddum degi voru sett inn stór sölutilboð í viðskiptakerfi, sem notast er við á skuldabréfamarkaði, rétt fyrir lokun markaða. Þegar í stefndi að tilboðið yrði slegið var það snarlega dregið til baka. Komið hefur fram að tilboðið var lagt fram í gegnum viðskiptakerfi HF Verðbréfa, sem fagfjárfestar hafa aðgang að til að eiga viðskipti milliliðalaust. Grundsemdir voru uppi um hvort með þessu hefði verið reynt að hafa áhrif á dagslokaverð skuldabréfa.

Eftir að svona mál hafa verið skoðuð af Kauphöllinni eru þau oft send til Fjármálaeftirlitsins. Í því felst engin sakbending heldur aðeins ábending ef FME vilji skoða málið betur með tiltækum úrræðum.