Eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hækkuðu um 28 milljarða á árinu 2007 og eru nú 268 milljarðar króna. Ávöxtun sjóðsins var 7% á síðasta ári, sem samsvarar tæplega 1% raunávöxtun, en meðalraunávöxtun seinustu fimm ára er 10,6% Alls var 6,9% ávöxtun af innlenda hlutabréfa safni sjóðsins en á sama tíma lækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 1,4%.

Ávöxtun erlendra hlutabréfa leið fyrir styrk íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum ásamt veikingu Bandaríkjadollar. Á liðnu ári ráðstafaði sjóðurinn til lánveitinga og hlutabréfakaupa 55,6 milljörðum.

Lánveitingar til sjóðfélaga námu 5,1 milljarði, innlend hlutabréfakaup námu 20,6 milljörðum og sala hlutabréfa 22,8 milljörðum. Erlend verðbréfakaup námu 11,3 milljörðum.

Á árinu 2007 greiddu 51 þúsund sjóðfélagar til sjóðsins og námu iðgjaldagreiðslur alls 15 milljörðum. Þá greiddu 7 þúsund fyrirtæki til sjóðsins vegna starfsmanna sinna. Á árinu 2007 nutu liðlega 8 þúsund lífeyrisþegar lífeyrisgreiðslna að fjárhæð 4,1 milljarður króna. Lífeyrisréttindi sjóðsfélaga verða ekki hækkuð.

„Það eru vissulega vonbrigði að geta ekki hækkað lífeyrisréttindi sjóðfélaga um þessi áramót eins og útlit var fyrir þegar árið var hálfnað,“ sagði Þorgeir Eyjólfsson forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.