Þrír flugáhafnarmeðlimanir hjá flugfélaginu Cathay Pacific Airways hafa verið reknir eftir að kínverskir farþegar kvörtuðu undan mismunun. Áhöfnin mun hafa hæðst að farþegunum fyrir að hafa ekki talað nægilega góða ensku.

Flugfélagið, sem staðsett er í Hong Kong, hefur beðist afsökunar á atvikinu en ríkisfjölmiðlar í Kína segja að flugfélagið horfi niður á kínverska íbúa frá meginlandinu.

Atvikið átti sér stað þegar farþegi ætlaði að biðja um teppi en í staðinn bað um gólfteppi. Í hljóðupptöku má heyra áhafnarmeðlim hlæjandi með samstarfsmanni sínum og segir: „Ef þú getur ekki sagt teppi (e. blanket) á ensku þá færðu það ekki. Gólfteppi (e. carpet) er fyrir gólfið.“

Upptökunni var deilt á kínverskum samfélagsmiðlum og hefur atvikið valdið mikla reiði. Sumir hafa meðal annars kallað eftir því að sniðganga Cathay Pacific og segir Hong Kong stjórnmálamaðurinn, John Lee, að atvikið hafi sært tilfinningar Kínverja.

„Sá sem móðgar kínversku þjóðina ætti að búa sig undir að greiða fyrir það,“

Greg Waldron, blaðamaður hjá tímaritinu FlightGlobal, segir að Cathay Pacific hafi ekki efni á því að missa kínverska viðskiptavini þar sem flugfélagið hafi komið mjög illa út úr heimsfaraldrinum. „Cathay reiðir sig mjög mikið á kínverska viðskiptavini. Þetta er lykilmarkaður bæði fyrir flugferðir til Hong Kong og til annarra ríkja.“

Cathay Pacific er ekki eina fyrirtækið sem hefur endað í skotlínu kínverskra netverja. Vörumerki eins og H&M, Nike, Adidas og Puma hafa undanfarin ár öll upplifað sölutap eftir að kínverskir samfélagsmiðlar snérust gegn þeim.

„Sá sem móðgar kínversku þjóðina ætti að búa sig undir að greiða fyrir það,“ segir Hua Chunying, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Atvikið er einnig viðkvæmt þar sem samskiptin milli meginlands Kína og Hong Kong hafa verið erfið undanfarin ár. Árið 2019 brutust út fjöldamótmæli í Hong Kong þegar svæðisstjórnin samþykkti framsalsfrumvarp og í kjölfarið voru umdeild öryggislög einnig samþykkt.