Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs Garðabæjar var jákvæð um 394,5 milljónir króna í fyrra, samanborið við 284,8 milljóna króna afgang árið 2011. Þegar A- og B-hlutar eru teknir saman var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 517,6 milljónir í fyrra, en var jákvæð um 352,3 milljarða árið 2011.

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 544,7 milljónir í fyrra, en var jákvæð um 610,9 milljónir árið 2011. Betri afkoma í fyrra ræðst því af því að nettó fjármagnsgjöld voru mun lægri í fyrra en árið á undan og munaði þar einum 176 milljónum króna.

Eignir A- og B-hluta samtals jukust um rúma 1,2 milljarða milli ára. Skuldir A- og B-hluta samtals hækkaði um 150 milljónir króna en eigið fé hækkaði um rúman milljarð. Eigið fé A- og B-hluta er samtals 10,2 milljarðar og skuldir 6,6 milljarðar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að stærsti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins séu fræðslu- og uppeldismál en til hans var á árinu varið 3,3 milljörðum króna sem er ríflega helmingur skatttekna. Næst stærsti málaflokkurinn er íþrótta- og æskulýðsmál , en til þeirra var varið 799 milljónum og þar á eftir kemur félagsþjónustan.

Framkvæmdir síðasta árs námu samtals um 1.562 milljónum króna sem í tilkynningunni er sagt í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun sem gerði ráð fyrir 1.536 milljónum. Þar af var 962 milljónum varið til framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili á Sjálandi sem verður tekið í noktun í apríl 2013.