Rekstrartekjur Nova námu 6,4 milljörðum króna árið 2014 og jukust um tæpan milljarð milli ára 2013, en þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins sem birtur var í gær.

Hagnaður og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jukust einnig á árinu. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 1.456 milljónum og jókst um tæpar 500 milljónir milli ára. Hagnaður hjá fyrirtækinu jókst þá um tæpar 300 milljónir milli ára og nam 814 milljónum í árslok.

Eignir félagsins námu 4,8 milljörðum króna í lok árs, og jukust um 1,3 milljarða milli ára. Bókfært eigið fé í árslok nam 3,1 milljarði króna að meðtöldu hlutafé að fjárhæð 1,6 milljarðar króna og jókst um 500 milljónir milli ára.

Móðurfélagið hefur ekki tekið langtímalán til að fjármagna fjárfestingar og er það að fullu fjármagnað með eigin fé. Eiginfjárhlutfall Nova var í árslok 64,6%. Hluthöfum Nova fjölgaði um sex á árinu og eru nú tíu.