Eigendur Olíufélagsins Esso og Bílanausts og dótturfélaga hafa ákveðið að sameina rekstur félaganna snemma á næsta ári að því er kemur fram í tilkynningu frá félögunum.

Þetta var tilkynnt á fundi með starfsmönnum beggja félaga í dag en hvort tveggja er í eigu eignarhaldsfélagsins BNT. Sameinað félag verður 10. stærsta fyrirtæki landsins með um 30 milljarða króna veltu á ári.

Í tilkynningunni kemur fram að markmiðið er að leysa aukinn slagkraft úr læðingi með markvissri samvinnu og fjölbreyttara vöruúrvali. Nú starfa um 700 manns hjá þeim fyrirtækjum sem munu sameinast.