Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hóf störf sem forstjóri Gray Line í október síðastliðnum. Hún byrjaði í ferðaþjónustunni sem unglingur en hefur komið víða við á sínum ferli. Þórdís Lóa segist leggja mikið upp úr því að ná jafnvægi á milli vinnu og einkalífsins og þjáist alls ekki af fullkomnunaráráttu að eigin sögn.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sneri aftur í ferðaþjónustuna eftir langa fjarveru þegar hún tók við starfi forstjóa Gray Line síðasta haust. Þórdís Lóa hefur afar fjölbreyttan bakgrunn þegar kemur að menntun og starfsreynslu.

Hún lærði sjónvarpsframleiðslu í New Orleans í Bandaríkjunum og tók síðan BA gráðu í félagsfræði og framhaldsnám  í félagsráðgjöf. Hún er að auki með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hóf störf í ferðaþjónustu sem unglingur og var leiðsögumaður fyrir ýmis ferðaþjónustufyrirtæki öll sín háskólaár.

Hún tók síðan við starfi framkvæmdastjóra þjónustusviðs hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur og starfaði samhliða sem umsjónarkennari við félagsvísindadeild og á menntasviði Háskóla Íslands, sem og í nefndarstörfum fyrir félagsmálaog heilbrigðisráðherra.

Hún ákvað síðan að venda kvæði sínu í kross og fjárfesta í veitingahúsakeðjunni Pizza Hut á Íslandi og síðan í Finnlandi og í rúman áratug rak hún þessar keðjur í báðum löndum. Hún sinnti aukinheldur ýmsum störfum fyrir Pizza Hut-keðjuna í Evrópu.

„Ég sat meðal annars í stjórn markaðs- og vörumerkjamála fyrir Pizza Hut í Evrópu og kom mikið að hönnun og innleiðingu á stjórnendaþjálfun fyrir alla stjórnendur fyrirtækisins í Evrópu,“ segir Þórdís Lóa. Á þessum tíma stofnaði hún einnig fjárfestingarfélagið Naskar Investments ásamt öðrum íslenskum athafnakonum, auk þess sem hún tók við formennsku í Félagi kvenna í atvinnulífinu. Síðasta haust tók hún svo við forstjórastarfinu hjá Gray Line.

Þórdísi Lóu lýst ekki vel á fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, sem stjórnvöld vilja færa í efra skattþrep úr því neðra.

„Mér líst bara mjög illa á það. Mitt ofan í gengismálin, breytta hegðun og mikla kostnaðarauka í greininni finnst mér þetta ekki vera vel ráðið. Mér finnst vanta alla langtímahugsun í þetta og ef það á að setja greinina í efra þrep þarf að gera það með miklu meiri fyrirvara, að minnsta kosti þriggja ára fyrirvara. Mér finnst þetta líka sýna lítinn skilning á greininni, eðli hennar og tekjum,“ segir hún. Mikilvægt sé að átta sig á því að ferðaþjónustan er komin að vera sem ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslands. Hún eigi því skilið athygli og uppbyggingu frá yfirvöldum.

Alltaf í vinnunni

Þórdís Lóa hefur verið lengi í stjórnunarstörfum og segist með reynslunni hafa lært að finna jafnvægi á milli starfsins og tíma fyrir sjálfa sig.

„Þegar maður er forstjóri hjá stórfyrirtæki er maður svosem alltaf í vinnunni, það er bara þannig. En ég er nú eldri en tvævetur í því að stjórna stórum einingum og ég er löngu búin að læra það að maður þarf að næra sig og endurnýja,“ segir Þórdís Lóa. Hún segist passa vel upp á að hreyfa sig, hún veiðir mikið og er skógræktarbóndi.

„Ég passa upp á almenna gleði og það er mín leið til að nærast og ná jafnvægi. Ég er ekki með neina tilhneigingu í neitt „Superman-hlutverk“ og að vera fullkomin í allar áttir er ekki til í minni orðabók, ég reyni það ekki einu sinni. Það hentar mér alls ekki að vera með fullkomnunaráráttu í kringum lífið og ég er alls ekki þar,“ bætir Þórdís Lóa við.

Nánar má lesa um málið í sérblaðinu Áhrifakonur. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .