Undirritaður hefur verið samningur um kaup ríkisins á Norðurhúsi við Austurbakka af Landsbankanum. Um er að ræða tæplega 6 þúsund fermetra byggingu sem er hluti af nýframkvæmdum Landsbankans við Austurhöfn. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Samhliða kaupunum ætlar ríkið að kaupa gamla Landsbankahúsið við Austurstræti.

Til stendur að nýta Norðurhúsið undir starfsemi utanríkisráðuneytisins, ásamt því að hluti hússins verður nýttur undir sýningar- og menningartengda starfsemi á vegum Listasafns Íslands og er þá einkanlega horft til samtímalistar.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að utanríkisráðuneytið muni næsta haust missa stóran hluta húsnæðis síns sem það hefur haft á leigu. Með flutningi utanríkisráðuneytisins í Norðurhús Austurbakka verði starfseminni komið fyrir á einum stað í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem verði nýtt með hagkvæmum hætti.

Borga sér húsnæðið í arð

Húsnæðið verður keypt fyrir andvirði sérstakrar viðbótararðgreiðslu frá Landsbankanum til ríkissjóðs sem þegar hefur verið innt af hendi og nemur kaupverðið um 6 milljarða króna miðað við fullfrágengið húsnæði.

Samhliða þessum kaupum hefur verið ákveðið að ganga til samninga um kaup ríkisins á gamla Landsbankahúsinu við Austurstræti. „Það telst því álitlegur kostur að byggingunni verði fundið verðugt hlutverk í íslensku samfélagi, til að mynda undir starfsemi dómstóla en endurskipuleggja þarf húsnæðismál þeirra til lengri tíma,“ segir í tilkynningunni.

Landsbankinn hóf starfsemi í Austurstræti 11 árið 1898 en húsið skemmdist mikið í miðbæjarbrunanum 1915. Húsið var endurreist og flutti bankinn starfsemi sína þangað árið 1924, en Guðjón Samúelsson teiknaði húsið.

Í frétt Stjórnarráðsins frá því í febrúar kom fram að ríkið ætlaði að kaupa Norðurhúsið við Austurbakka. Heildarkostnaður Landsbankabyggingarinnar nemur tæplega 12 milljörðum króna, en áður hafði verið stefnt að 9 milljarða kostnaði. Ákvörðun um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum bætti við kostnaði.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að framkvæmdum við Norðurhús verði lokið á árinu 2023 og að þá muni um 700-800 manns starfa í öllu húsinu. Norðurhús Austurbakka er samtals um 5.900 fermetrar. Ríkissjóður mun í fyrstu greiða 4,6 milljarða króna, en 1,4 milljarðar munu bætast við kaupverðið þegar gengið hefur verið frá jarðhæð og kjallara.

Landsbankinn hafði nú þegar tilkynnt að bankinn ætli að nýta um 10 þúsund fermetra af byggingunni, en selja eða leigja út 6.500 fermetra. Byggingin skiptist í fjögur sambyggð hús og hyggst bankinn nýta húshlutana næst Geirsgötu en selja eða leigja frá sér þá hluta sem eru nær Hörpu, eins og norðurhúsið. Þannig er skýr afmörkun á þeim rýmum sem bankinn hyggst nýta og þeirra rýma sem hann hyggst leigja út eða selja.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri:

„Við erum afar ánægð með að samningar hafi tekist um að ríkið kaupi Norðurhús og ætli að flytja þangað starfsemi utanríkisráðuneytisins og nýta fyrir lista- og menningarstarfsemi. Austurbakki er vel hannað og fallegt hús sem fellur vel að umhverfi sínu. Starfsemi bankans, ráðuneytisins og ekki síður listasafnsins á góða samleið og mun án efa hleypa miklu lífi í allt svæðið. Við sem störfum í bankanum erum mjög spennt fyrir því að flytja í nýja húsið, úr tólf húsum í Kvosinni og tveimur húsum í Borgartúni. Það verður mikill munur að fá starfsemina loksins í eitt og miklu minna hús og flutningarnir munu leiða til aukinnar hagkvæmni, samvinnu og stuðla að enn betri þjónustu bankans. Við fögnum því líka að ríkið skoði kosti þess að kaupa Austurstræti 11, enda er mikilvægt að það góða hús fái hlutverk við hæfi.“