*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 10. janúar 2012 11:35

Ríkið þarf að greiða 8 milljarða í 40 ár í B-deild LSR

Með því að greiða 7,8 milljarða króna árlega í 40 ár mundi B-deild LSR eiga fyrir skuldbindingum sem á sjóðnum hvíla.

Ritstjórn

Heildarskuldbinding B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) er neikvæðu um 350 milljarða króna eða um 12 prósent. Í heildarskuldbindingu sjóðsins felast áfallin réttindi sjóðsfélaga auk réttinda sem núverandi sjóðsfélagar eiga eftir að ávinna sér í framtíðinni.

Ef engar aukagreiðslur koma frá ríkissjóði mun B-deild sjóðsins komast í þrot á árinu 2025. Ef gert væri ráð fyrir að ríkissjóður greiddi jafna fjárhæð frá og með árinu 2012 þá yrði sú greiðsla að nema 7,8 milljörðum króna í næstu 40 ár. Með því framlagi mundi sjóðurinn duga fyrir þeim skuldbindingum sem á honum hvíla.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur á Alþingi. Þar segir einnig að ríkissjóður hefði greitt samtals 85 milljarða króna aukalega til B-deildar LSR (og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga) á árunum 1999 til 2010. Uppfært með verðbótun og hreinni raunávöxtun nemi þessi upphæð 146 milljörðum króna.

Stikkorð: LSR Vigdís Hauksdóttir