Ríkissjóður metur sinn eignarhlut í Landsbankanum á lægra gengi en skatturinn. Gengi á hlutum ríkisins er ekki uppfært í ríkisreikningi. Fram kemur í ríkisreikningi fyrir árið 2013 þar sem frumjöfnuður var mun jákvæðari en gert var ráð fyrir að það væri meðal annars vegna virðisaukningar á eignarhlut ríkissjóðs í Landsbankanum. Virðisaukningin nam 24,9 milljörðum króna sem ríkissjóður tekjufærði.

Ríkið fékk 3.980 milljónir hluta frá gamla bankanum LBI hf. á nafnverðinu 6,25. Þetta var hluti af samkomulagi Landsbankans við gamla bankann. Ríkið átti að eignast þessa hluti þegar uppgjöri skilyrta skuldabréfsins væri lokið.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í samtali við VB Sjónvarp á dögunum að þetta gengi sem ríkissjóður miðaði við væri það sama og bankinn var metinn á þegar ríkið lagði honum til eigið fé í upphafi. Í lok árs 2012 var innra virði bankans hins vegar 9,38 og er miðað við það gengi hjá skattinum þegar starfsmenn eru skattlagðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .