Fjárlagafrumvörp síðustu tveggja ára vanmátu tekjur ríkissjóðs af eignarhlutum hans í viðskiptabönkunum þremur um samtals 30,8 milljarða króna. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar segir að frumvarpið 2014 hafi gert ráð fyrir 8,1 milljarði króna í arð. Raunin varð hins vegar sú að bankarnir greiddu ríkinu tæplega 21 milljarð króna í arð. Þá gerir frumvarp þessa árs ráð fyrir 7,7 milljarða tekjum en þær reyndust 25,6 milljarðar króna. Þessi tvö ár hefur ríkið því vanmetið tekjur sínar af bönkunum um 30,8 milljarða króna.

Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins af bönkunum muni nema 8 milljörðum króna. Hálfsársuppgjör bankanna sýna aftur á móti að samanlagður hagnaður þeirra á fyrri hluta ársins nemur 43 milljörðum króna. Arðgreiðsla til ríkisins ætti samkvæmt þessu að nema 11 milljörðum króna, og er það bara vegna fyrri helmings ársins.