Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands greindi frá því á Bessastöðum  nú fyrir nokkrum mínútum að ljóst væri að skapast hafi grundvöllur til að mynda ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Græns framboðs. Framsóknarflokkurinn hafi einnig skuldbundið sig til að verja hana vantrausti. Hann sagðist hafa falið Jóhönnu Sigurðardóttur það hlutverk að mynda þessa stjórn og að hún yrði þar forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði að verkefni nýrrar stjórnar væri fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og mynda skjalborg um heimilin í landinu. Viðfangsefnið væri að endurreisa íslenskt efnahagslíf og innleiða ný gildi í samfélaginu.

Fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forystu Geirs H. Haarde mætir á sinn síðasta ríkisráðsfund klukkan fimm í dag og ný ríkistjórn mætir síðan á Bessastaði klukkan sex og tekur við keflinu.