Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í morgun að fela starfshópi ráðuneyta ásamt sjálfstætt starfandi lögmönnum að undirbúa hugsanleg skaðabótamál  á hendur þeim lögaðilum og einstaklingum, sem sýna má fram á að hafi valdið ríkinu og almenningi í landinu fjárhagslegt tjón með athöfnum sínum í aðdraganda bankahrunsins og í því.

„Slík mál, ef til kæmi, yrðu rekin sem einkamál og kröfur ríkisins í þeim einkaréttarlegs eðlis, þ.e. að ríkið fái bætur fyrir tjón sem það hefur orðið fyrir vegna verka annarra," segir í minnisblaði sem fjármálaráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í því segir að þetta hafi verið til skoðunar í ráðuneytinu að undanförnu.

Í minnisblaðinu segir enn fremur að sönnunarkröfur í skaðabótamálum hafi verið með öðrum hætti en í opinberum málum. „Ef fyrirliggjandi gögn sýna brotlega eða gáleysislega framgöngu tiltekinna einstaklinga eða lögaðila sem leitt hefur til tjóns fyrir íslenska ríkið er unnt að huga að skaðabótamálum án þess að afráða þurfi fyrst um refsinæmi háttseminnar. Sönnunarkröfurnar í einkamáli eru vægari þó vissulega beri sá sönnunarbyrðina sem heldur fram skaðabótaskyldu annars gagnvart sér."

Fyrst kyrrsetning eigna svo málshöfðun

Í minnisblaðinu leggur fjármálaráðherra til að starfshópi ráðuneyta ásamt sjálfstætt starfandi lögmönnum verði falið að undirbúa hugsanleg skaðabótamál. „Verkefni þeirra verður m.a. að gera á því athugun í hvaða tilvikum líklegt er að hefja megi slík mál með árangri, skilgreina einstök mál og velja þau sem líklegt er að geti haft hraðan framgang og hafi fordæmisgildi," segir í minnisblaðinu.

„Þegar talið er að fyrir liggi með nægilega ljósum hætti tjónstilvik, tjón, sökunaut og tengsl atviks og framgöngu tjónvalds við tjón ríkisins væri hægt að hefjast handa með því að æskja kyrrsetningar á eignum viðkomandi tjónvalds, einstaklinga eða lögaðila og efna svo til málsóknarinnar í kjölfarið."

Að lokinni þessari undirbúningsvinnu yrði ákveðið hvort og með hvaða hætti staðið yrði að málshöfðun og þá m.a. hvort hún yrði í höndum ríkislögmanns eða annarra.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að í starfshópi ráðuneytanna yrðu fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis. Þeir myndu stýra umræddu verkefni.

Þeir fengju sömuleiðis heimild til að ráða tvo til þrjá lögfræðinga til að vinna að könnun og undirbúningi málshöfðunar.