*

þriðjudagur, 21. september 2021
Erlent 28. júlí 2021 08:41

Rio Tinto greiðir út 1.150 milljarða

Endurskoðunarfyrirtækið PwC áætlar að hagnaður 40 stærstu námufyrirtækja heims aukist um 68% milli ára.

Ritstjórn
Skrifstofa Rio Tinto í borginni Perth í Ástralíu
epa

Afkoma námufyrirtækisins Rio Tinto á fyrri helmingi ársins var betri en á öllu síðasta ári, en fyrirtækið hagnaðist um 12,3 milljarða dala á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaður fyrirtækisins jókst um 271% frá sama tímabili í fyrra.  

Verð á járngrýti náði sínu hæsta stigi á tímabilinu og eftirspurn í Kína hefur verið mikil. Sala á járngrýti liggur að baki 85% af hagnaði fyrirtækisins. Tekjur Rio Tinto námu 33 milljörðum dala á fyrri helmingi ársins.

Álframleiðsla Rio Tinto nam 1,6 milljónum tonna, sem er um 3% aukning frá fyrra ári. Í uppgjöri fyrirtækisins segir að framleiðsla í álverinu í Straumsvík hafi verið við fulla afkastagetu. 

Eftir mikla hagnaðaraukningu ákvað fyrirtækið að greiða 9,1 milljarð dala í arð til hluthafa, eða um 1.150 milljarða króna. Um er að ræða hæstu arðgreiðslu fyrir hálfs árs uppgjör í sögu Rio Tinto, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Miðað við spár um framleiðslu og hrávöruverð áætlar endurskoðunarfyrirtækið PwC að stærstu 40 námufyrirtæki heims skili samtals 118 milljarða dala hagnaði eftir skatt í ár, sem yrði 68% meira en á síðasta ári.

Stikkorð: Rio Tinto járngrýti