Þýski bankinn  IKB Deutsche Industriebank, sem er eitt helsta fórnarlamb bandarísku undirmálskreppunnar, hefur tilkynnt um stórfellt tap á seinustu þremur ársfjórðungum, eða samtals um 1 milljarð evra, um 113 milljarðar íslenskra króna.

Bankinn er nú í sölumeðferð og hefur Børsen eftir forsvarsmönnum hans að henni verið haldið áfram þrátt fyrir nýjar taptölur og bágborið ástand fjármálamarkaða.

Markaðsverð lækkað um þrjá fjórðu

Markaðsverðmæti fyrirtækisins er um 365 milljónir evra og hefur lækkað um þrjá fjórðu síðan í nóvember, þegar flóðbylgjan af völdum undirmálslánanna skall á alþjóðahagkerfinu, þar af um 40% á þessu ári.

Einn stærsti eigandi bankans, ríkishlutafélagið KfW Group, hefur að undanförnu boðið hlut sinn í bankanum til sölu.