Opinbert stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta verður stokkað upp samkvæmt nýju stjórnarfrumvarpi sem Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur fram á Alþingi á næstu dögum.

Þar er gert ráð fyrir að Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði sameinaðar í Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem verður með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Áfram verður þó rekið öflug tæknirannsókna- og frumkvöðlastarfsemi á Keldnaholti í Reykjavík.

Valgerður Sverrisdóttir kynnti málið í ráðuneytinu í dag, en ráðherra skipar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fyrir 1. ágúst 2006 og felur honum að undirbúa framkvæmd væntanlegra laga. Starfsmönnum Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins verða boðin störf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Í þessum breytingum felst að opinbert lánakerfi sem verið hefur við lýði undir þaki Byggðastofnunar verður lagt niður. Þá verður flókið styrkja og lánakerfi einfaldað til muna og er þrem sjóðum ætlað að sinna skilgreindum hlutverkum í stuðningskerfi nýsköpunar og atvinnuþróunar. Verða þessir sjóðir allir vistaðir og reknir af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en án þess að í sjóðunum sjálfum verði sérstök starfsemi. Yfir hverjum og einum þeirra verða þó sérstakar stjórnir til að útiloka að umsóknir vegna verkefna sem unnin eru í gegnum Nýsköpunarmiðstöðina sjálfa njóti nokkurs forgangs. Sjóðirnir eru Tækniþróunarsjóður, nýr Byggðasjóður og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem er reyndar til í dag með sama heiti.

Í stað lánveitinga hins opinbera til atvinnulífsins í gegnum Byggðastofnun er nú gert ráð fyrir að bankarnir annist öll slík lán, en byggðasjóði er ætlað það hlutverk að veita ábyrgðir vegna verkefna á landsbyggðinni eftir því sem við á. Er landsbyggðin þá skilgrein allt svæðið norðan Hvalfjarðar, austan hellisheiðar og að og með Grindavík. Suðurnes þar fyrir utan eru hins vegar skilgreind með höfuðborgarsvæðinu. Ekki er gert ráð fyrir að Byggðasjóður fái bein fjárframlög úr ríkissjóði heldur standi undir starfsemi sinni með tekjum af ábyrgðargjöldum og fjármagnstekjum af eigin fé.