Velta Kaffitárs ehf., sem leggur áherslu á að framleiða gæðakaffi, fór yfir 500 milljónir króna á síðasta ári og jókst um 36% á milli ára. Að sögn Aðalheiðar Héðinsdóttur, framkvæmdastjóra Kaffitárs, var afkoman viðunandi þó hún hafi ekki verið eins góð og árið á undan vegna hás fjármagnskostnaðar. Samkvæmt áætlun félagsins er gert ráð fyrir 20% veltuaukningu á þessu ári.

Kaffitár rekur í dag sex kaffihús og að sögn Aðalheiðar er fyrirhugað að opna þrjú ný kaffihús á þessu ári. Samkomulag hefur náðst við rekstraraðila Höfðaborgar í Borgartúni. Þar sagði Aðalheiður að ætlunin væri að opna glæsilegt kaffihús og kaffiverslun. Um leið er verið að skoða tvo aðra leigusamninga en Kaffitár hefur sett sér þá stefnu að opna tvö til þrjú ný kaffihús á hverju ári.

Að sögn Aðalheiðar er félagið nú með um það bil 21% markaðshlutdeild á kaffisölu í matvöruverslunum sem hún sagði að væri óvenju hátt hlutfall varðandi gæðakaffi. Hún sagði að Íslendingar hefðu tekið kaffi þeirra mjög vel og augljóst að neyslubreyting væri að eiga sér stað varðandi kaffi.

Kaffitár rekur kaffibrennslu og eldhús við Njarðvík sem Aðalheiður sagði að væri orðið of lítið. Stefnt er að því að stækka húsnæðið og er sérstaklega orðið brýnt að stækka eldhús fyrirtækisins sem framleiðir það kaffibrauð sem selt er í kaffihúsum fyrirtækisins.Kaffitár er í eigu Aðalheiðar og fjölskyldu hennar.