Stefnt er að því að tæplega tvöfalda tekjur lyfjafyrirtækisins Alvogen á næstu þremur árum. Gert er ráð fyrir því að tekjurnar verði 460,6 milljónir dala á þessu ári og að þær fari í 902,5 milljónir árið 2017.

Kjarninn fjallar um málið og segir Róbert Wessman, forstjóra Alvogen frá árinu 2009, sem áður stýrði Actavis, hafa talað fyrir miklum vaxtaráformum fyrirtækisins hjá alþjóðlegum bönkum að undanförnu. Kjarninn segir að sá vöxtur sem áður var nefndir hafi komið fram á´einni sviðsmynd sem teiknuð var upp i kynningu Róberts fyrir austurríska bankann Reiffeisen 28. október í fyrra.

Auk mikil tekjuvaxtar er gert ráð fyrir að EBTDA-hagnaður (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta) muni vaxa jafnt og þétt á þessum tíma; fara úr 69,2 milljónum dala í 217,2 milljónir dala. Helstu markaðssvæði Alvogen er í Bandaríkjunum, í Asíu og í Mið- og Austur-Evrópu.

Í Kjarnanum segir að síðan Róbert tók við stjórnartaumunum hjá Alvogen hafi hlutirnir gerst hratt. Fyrsta árið voru tekjurnar 37,1 milljón Bandaríkjadala en hafa hækkað jafnt og þétt síðan; voru 55,6 milljónir dala árið 2010, 136,2 milljónir dala árið 2011, 215,9 milljónir dala árið 2012 og 373,2 milljónir dala í fyrra. Vöxturinn hefur verið mikill, bæði innri og ytri vöxtur.