Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur staðfest tillögur stjórnar Framkvæmdasjóðs fatlaðra um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2008. Til úthlutunar var rúmur milljarður íslenskra króna.

Stærstum hluta upphæðarinnar var úthlutað til uppbyggingar búsetuúrræða fyrir fatlaða, eða um 800 milljónium króna.

Til viðhalds fasteigna var úthlutað rúmum 111 milljónum króna, 26 milljónum var úthlutað í styrki vegna aðgengismála fatlaðra og 10 milljónum til íþróttamála fatlaðra. Þá var 1,5 milljónum króna úthlutað til úttektar á sambýlum sem rekin eru af einkaaðilum og sjálfseignarstofnunum.

Með stjórn Framkvæmdarsjóðs fatlaðra fara fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk tveggja fulltrúa félags- og tryggingamálaráðherra.

Þetta kemur fram í frétt á vef félagsmálaráðuneytisins.