Seðlabankinn í Rússlandi hækkaði stýrivexti í gær í fyrsta skipti frá árinu 2008. Hafa stjórnendur bankans áhyggjur af vaxandi verðbólgu vegna hækkandi matvöruverðs. Voru stýrivextir bankans því hækkaðir um 0,25 prósentur á meðan öðrum vöxtum var haldið óbreyttum. Voru verðbólguvæntingar sagðar hóflegar en þyrftu meiri athygli stjórnvalda.

Á mánudaginn munu daglánavextir seðlabankans hækka í 2,75% en fjármálastofnanir geta enn fjármagnað sig til lengri tíma á 7,75% vöxtum. Þeir vextir hafa aldrei verið lægri og hefur ekki verið breytt frá því í maí. Talið er að slaki í peningamálastefnunni eigi enn eftir að koma að fullu til framkvæmda í gegnum miðlunarferlið og út í hagkerfið samkvæmt Wall Street Journal.