British American Tobacco (BAT) er nýjasta fórnarlamb Rospotrebnadzor, rússnesku neytendasamtakanna. Samtökin hafa hótað tóbaksframleiðandanum að beita lagalegum úrræðum til að berjast gegn misvísandi upplýsingagjöf BAT um vörur sínar.

Gennady Onishchenko, helsti forsvarsmaður Rospotrebnadzor segir BAT beinlínis ráðast gegn réttindum viðskiptavina sinna með aðferðum sínum. Onishchenko vildi þó ekki upplýsa hvers eðlis aðgerðir samtakanna gegn BAT verði.

Onishchenko hefur áður ráðist gegn BAT, en hann hefur sakað fyrirtækið um „nikótínþjóðarmorð” fyrir að hagnast á kostnað heilsufars rússnesku þjóðarinnar. Í dag lagði hann áherslu á þennan málflutning, og sagði tóbaksframleiðendur líta á Rússland sem „ósiðmenntaðan markað þar sem í lagi sé að selja hættulegar og eitraðar vörur."

Ekki hefur heyrst yfirlýsing frá höfuðstöðvum BAT í London um málið. Fulltrúi fyrirtækisins í Moskvu hefur þó ekki sagst hafa borist neinar kröfur frá Rospotrebnadzor, og sé því ekki ljóst hvers eðlis kvartanir þeirra séu. Fyrirtækið starfi jafnframt í samræmi við rússneska löggjöf"

Líklegt þykir að kröfur Rospotrebnadzor miði að því að breyta „Light” og „Superlight” merkingum á sígarettupökkum. Neytendasamtökin hafa sagt að slíkar merkingar blekki kaupendur vörunnar og telji þeim trú um að „Light” sígarettur séu hollari á einhvern hátt.

Yfirvöld í Kreml hafa á undanförnum árum gerst æ meðvitaðari um baráttuna gegn neyslu tóbaks. Varnaðarmerkingar á sígarettupökkum hafa stækkað, og heilbrigðisyfirvöld hafa kallað eftir verðhækkunum til að sporna við neyslu.