Stjórn lággjaldaflugfélagsins Ryanair hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún hafi hvorki íhugað né samþykkt áætlun um flug yfir Atlantshafið, en fjölmiðlar greindu frá áformunum í byrjun vikunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni sem BBC News greinir frá.

Fram kom í fréttum að stjórn flugfélagsins hefði samþykkt að fyrirtækið skyldi bjóða upp á áætlunarferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna innan fimm ára. Áformin væru hluti af metnaðarfullri vaxtaráætlun flugfélagsins, en ódýrustu miðarnir þarna á milli áttu að kosta um 10 pund.

Nú hefur stjórn Ryanair hins vegar slegið algjörlega á slíkar fréttir. Tilkynningin er stutt og skorinorð en hún segir einfaldlega að félagið hafi ekki samþykkt slíka áætlun og hafi ekki í hyggju að gera það í framtíðinni.