Elías Guðmundsson, annar eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Fisherman á Suðureyri, sem opnaði í dag sælkerabúð með fisk í vesturbæ Reykjavíkur, segir tilganginn vera að jafna sveiflur í rekstrinum.  „[H]ann getur verið nokkuð árstíðabundinn fyrir vestan,“ segir Elías í samtali við Morgunblaðið . „Það snýst allt um fisk hjá okkur.“

Sælkerabúðin, sem selur fisk, meðlæti og sósu, hvort tveggja til að borða á staðnum og til að taka með, er til húsa á Hagamel 67, þar sem bókabúðin Úlfarsfell var áður, en eins og V iðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma er húsnæðið við hlið Ísbúðar vesturbæjar sem margir þekkja.

Þar verður jafnframt boðið upp á ýmsa sérrétti eins og plokkfisksamloku, smjörsteiktar gellur og djúpsteiktan fisk og franskar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er fyrirtækið starfrækt á Suðureyri, þar sem það hefur vaxið úr því að vera lítið gistiheimili í að vera einn vinsælasti áfangastaðurinn á Vestfjörðum þar sem boðið er upp á sælkeraferðir um bæinn og náttúrufegurðina í kring, auk þess að selja sælkeravörur undir eigin merkjum.