Íslenska nýsköpunarfyrirtækið SagaMedica hefur lokið skráningu á náttúruvörunni SagaPro í Kanada og hefur fyrirtækið nú heimild heilbrigðisyfirvalda í Kanada til að markaðssetja SagaPro við tíðum þvaglátum þar í landi. Skráningin í Kanada er mikilvægur áfangi í starfsemi SagaMedica þar sem virkni vörunnar er nú viðurkennd af kanadískum heilbrigðisyfirvöldum og því er mögulegt að hefja markaðssetningu SagaPro fyrir alvöru í Kanada.

Unnið hefur verið að skráningu í Kanada frá því í ársbyrjun 2010 en niðurstöður klínískrar rannsóknar á SagaPro, sem birtar voru sumarið 2012 skipti sköpum í skráningarferlinu. „Þessi afgreiðsla kanadískra heilbrigðisyfirvalda er mikilvæg viðurkenning á rannsóknar- og þróunarstarfi SagaMedica því í henni felst staðfesting á þeim niðurstöðum sem leiddar voru í ljós í klínískri rannsókn okkar, að SagaPro eykur blöðrurýmd og gagnast vel við næturþvaglátum. Þá getum við nú farið að auglýsa SagaPro í Kanada sem ekki var hægt að gera fyrr en þessi staðfesting lá fyrir,“ segir Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdastjóri SagaMedica, í tilkynningu. Hún segir miklar vonir bundar við Kanadamarkað nú þegar hægt verður að hefja markaðsstarf þar fyrir alvöru.

SagaPro fór á markað í Bandaríkjunum í mars 2013 og telja forsvarsmenn SagaMedica að salan þar farið mjög vel af stað og sölumarkmiðum sem miðað var við að ná á tveimur árum hafi þegar verið náð. Í dag er  SagaPro til sölu á Íslandi, Bandaríkjunum og Kanada en SagaMedica afgreiðir einnig vörur um allan heim og hefur netverslun vaxið hratt á undanförnum misserum.