Fullyrt er að verslunarkeðjan Co-operative Group sé í þann mund að kaupa Somerfield á næstu dögum.

Somerfield er í eigu Robert Tchenguiz, stjórnarmanns í Exista, Kaupþings auk Barclays Private Equity og Apax Partners. Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir heimildarmanni sínum að Somerfield verði selt 1,5 til 1,6 milljarða punda.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones að eigendur Somerfield  hafi í upphafi vonast til þess að hægt yrði að selja keðjuna fyrir 2,5 milljarða punda, en hún var sett í sölu í febrúar.

Í upphafi sýndi Asda Group, sem er félag í eigu bandaríska verslunarrisans Wal-Mart, kaupunum áhuga en ef marka má frétt Dow Jones stendur Co-op eitt eftir. Fram kemur að forráðamenn Co-op skoði nú bækur Somerfield og að tilkynnt verði um kaupin á næstu dögum.

Dow Jones hefur þó eftir heimildamönnum sínum að ekki sé útilokað að lengri tími muni líða þangað til að viðskiptin verði innsigluð.