„Álagningin er ekki mikil, sérstaklega þegar kemur að skáldsögunum, og þurfum við því að hreyfa vörurnar hratt,“ segir Gísli Einarsson, eigandi verslunarinnar.

Í hópi þeirra sem hafa unun af því að lesa vísindaskáldskap og fantasíubókmenntir er Nexus einstök hvað varðar verð. „Núna er verð á kiljum hjá okkur lægra en á miða í þrívíddarbíó og það er í fyrsta sinn sem það gerist frá því að ég byrjaði í bransanum. Staðan er einfaldlega sú að við erum ekki í samkeppni við aðrar bókabúðir, heldur erum við að keppa við Amazon og internetið. Til að geta keppt þá verðum við að halda verðinu í lágmarki. Hrun krónunnar fór algerlega með framlegðina hjá okkur því við gátum ekki hækkað verðið mikið og það er ekki enn útséð með það hvernig krónan mun fara með okkur.“

Í gegnum tíðina hafa ýmsar breytingar orðið á hegðun viðskiptavina og hefur Gísli og verslunin þurft að bregðast við þeim. „Við vorum um tíma nokkuð umfangsmikil í útleigu á DVD-myndum og sjónvarpsþáttum, en þetta er alveg dautt núna. Við seljum ennþá töluvert af DVD-diskum en það er eitthvað sem á eftir að deyja út fyrr eða síðar. Á móti kemur að eftir hrunið jókst sala á borðspilum mjög mikið. Fólk vill gera eitthvað saman á kvöldin sem kostar e.t.v. ekki mjög mikið og borðspil geta verið stórkostleg skemmtun. Verslun eins og Nexus þarf líka að vera á tánum og bregðast hratt við nýjum bylgjum og þar skiptir máli að vera með góða starfsmenn sem hafa jafnmikinn áhuga á þessum heimi og viðskiptavinirnir.“