Hagnaður bandaríska smásölurisans Wal-Mart jókst um 4% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og nam samtals 4,09 milljörðum Bandaríkjadala. Sölutekjur Wal-Mart hækkuðu jafnframt á milli ára og námu 107,4 milljörðum dala, sem var 8% aukning frá því árið 2006.

Sölutekjur smásölurisans voru umfram meðalspá greinenda. Markaðir tóku uppgjöri Wal-Mart vel og hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum vegna væntinga fjárfesta um að ekki muni draga jafn mikið úr einkaneyslu almennings á þessu ári, eins og sumar spár gera ráð fyrir.

Hins vegar greindi Wal-Mart frá því að fyrsti mánuður ársins hefði farið rólega af stað og sagðist félagið vera hóflega bjartýnt um horfurnar á þessu ári.