Samherji hf. hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2011. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri, veittu verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn nú í hádeginu. Það var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem afhenti verðlaunin.

Samherji er í dag alþjóðlegt sjávarútvegs- og matvælaframleiðslufyrirtæki og hefur þá sérstöðu að vera með stærri hluta af umsvifum sínum utan Íslands. Þá hafa síðustu tvö ár verið Samherja sérstaklega hagfelld og fjárfestingar félagsins í Frakklandi, á Spáni og í Kanada hafa þegar skilað félaginu tekjum. Samherji hefur einnig aukið bein umsvif sín hér á landi, nú síðast með kaupum á Útgerðarfélagi Akureyrar.

„Samherji sendir í dag út um 700 launaseðla í hverjum mánuði hér á landi. Erlend fyrirtæki sem Samherji á hlut í hafa nú á hálfu ári gert samninga við íslensk iðnfyrirtæki fyrir um 900 milljónir króna. Það er því óhætt að segja að samfélagslegu áhrifin af starfsemi Samherja eru gífurleg hér á landi,“ sagði Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, við afhendingu verðlaunanna nú fyrir stundu.

Einn mikilvægasti þáttur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja er markaðsstarf. Samkeppnin er hörð og markaðir með sjávarafurðir síbreytanlegir. Það kostar þekkingu og áræðni að verja markaðsstöðu íslenskra sjávarafurða og sækja á nýja fjarlæga markaði. Árangur Samherja, allt frá því að aflinn er dreginn um borð þangað til hann er afhentur kaupanda, tryggir hámarks afrakstur af fiskveiðiauðlindinni sem allir Íslendingar njóta góðs af með beinum eða óbeinum hætti.

Rétt er að geta þess að í Áramót, áramótatímariti Viðskiptablaðsins, er að finna ítarlegt viðtal við Þorstein Má þar sem hann fjallar um rekstur Samherja hér heima og erlendis, umræðuna um fiskveiðistjórnun, þekkingu sína á sjávarútvegi erlendis og margt fleira. Áramót barst áskrifendum Viðskiptablaðsins í morgun og verður einnig fáanlegt í lausasölu.

Áramót - Forsíða tímarits Viðskiptablaðsins 2011.
Áramót - Forsíða tímarits Viðskiptablaðsins 2011.