Úrskurður áfrýjunarnefndar í olíusamráðsmálinu svokallaða frá því í janúar árið 2005 gegn olíufélögunum stendur óhaggaður, samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag sem vísaði málinu frá héraðsdómi. Olíusamráðsmálið hefur staðið yfir í hátt í áratug. Það snýst í grófum dráttum um það að olíufélögin sem þá voru, Olíuverslun Ísland, Ker og Skeljungur, hefðu gerst sek um víðtækt brot á 10. grein samkeppnislaga og skyldu greiða stjórnvaldssektir.

Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu árið 2004 að félögin hefðu brotið samkeppnislög og sektaði þau. Félögin skutu málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála eins og lög gera ráð fyrir. Nefndin staðfesti brotin en lækkaði sektina og varð hún á endanum 1,5 milljarður króna. Félögin greiddu sektina með fyrirvara og höfðuðu mál á hendur Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu þar sem gerð var krafa um ógildingu áfrýjunarnefndar og endurgreiðslu sektarinnar. Í mars í fyrra féllst héraðsdómur á kröfu olíufélaganna á ógildingu og mælti fyrir um endurgreiðslu.

Niðurstaða héraðsdóms frá í fyrra er nú úr gildi fallin samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag og er staðan sú sama eins og hún var í janúar árið 2005 þegar áfrýjunarnefnd kvað upp úrskurð sinn. Þá dæmdi Hæstaréttur olíufélögin til að greiða Samkeppniseftirlitinu og ríkinu hvoru um sig 15 milljónir króna í málskostnað.

Dómur Hæstaréttar