Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að ógilda samruna Vodafone og Tals á þeirri forsendu að samruninni valdi röskun á samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitinu. Þar segir m.a.:

„Hefur eftirlitið komist að þeirri niðurstöðu, í ákvörðun sem birt er í dag, að samruni Vodafone og Tals myndi leiða til verulega aukinnar samþjöppunar á fákeppnismarkaði og til tvíkeppni á ýmsum undirmörkuðum á sviði fjarskipta. Án íhlutunar yrði staðan sú að aðeins tveir stórir aðilar, Síminn og Vodafone, myndu bjóða heildstæða fjarskiptaþjónustu, auk þess sem nokkrir minni aðilar myndu veita þjónustu á tilteknum afmörkuðum sviðum á smásölumarkaði.“

Jafnframt segir í tilkynningunni að Tal sé mikilvægur keppinautur Símans og Vodafone enda séu fyrirtækin þrjú þau einu hér á landi sem bjóða upp á heildarfjarskiptaþjónustu á smásölumarkaði.

„Samrunaaðilar lögðu fram tillögur að skilyrðum til þess að vinna gegn þeim samkeppnishömlum sem Samkeppniseftirlitið telur stafa af samrunanum. Eins og rökstutt er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eru þessar tillögur ófullnægjandi og því ógildir eftirlitið samrunann," segir í tilkynningunni.