Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, ræddi stuttlega um fyrirhugaðan samruna við Kviku banka í ávarpi sínu á aðalfundi bankans í gær. Hann segir að samruninn við Kviku muni hafa í för með sér 8% aukningu í útlánum og 13% aukningu í innlánum.

„Bankinn hafði í sinni stefnumótunarvinnu haft hug á frekari vexti. Þessar viðræður eru því í samræmi við þá vegferð,“ sagði Finnur.

Stjórn Kviku banka óskaði í byrjun febrúar eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli bankanna tveggja. Viku síðar samþykkti stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður við Kviku. Finnur segir að verið sé að taka fyrstu skrefin í þeim viðræðum.

„Það eru fjölmörg tækifæri í samruna við Kviku, en skoða þarf hlutina vel og vanda til verka. Íslandsbanki þekkir vel til samruna við aðrar fjármálastofnanir og má þar nefna sameininguna við BYR [árið 2011].“

Viðræður við eftirlitsaðila muni ráða miklu

Margir hafa velt fyrir sér hvernig Samkeppniseftirlitið muni bregðast við áformum um samruna Íslandsbanka og Kviku. Meðal þess sem horft hefur verið til að SKE hafi áhyggjur af sé sameiginleg markaðshlutdeild bílafjármögnunarfyrirtækjanna Ergo, í eigu Íslandsbanka, og Lykils, í eigu Kviku.

Þá á Íslandsbanki söluumboð tryggingarfélagsins Allianz á Íslandi sem er þó mun minna í umsvifum en TM á tryggingarmarkaðnum hér á landi. Fyrirtækin eru bæði nokkuð umsvifamikil á sviði eignastýringar auk þess sem sameinað fyrirtæki kann að verða það stærsta á landinu á sviði verðbréfamiðlunar.

„Viðræður við eftirlitsaðila eru mikilvægur þáttur í ferlinu framundan og þær munu ráða miklu um árangur verkefnisins,“ segir Finnur.

© vb.is (vb.is)