Stjórnir Kaupfélags Borgfirðinga og Kaupfélags Suðurnesja hafa samþykkt að ganga til samstarfs um rekstur verslunarfyrirtækja félaganna, Samkaupa hf. og KB Borgarnes ehf. Stefnt er að því að ganga frá samstarfssamningi um innkaup, markaðsmál og fleira tilheyrandi núna í júní. Félögin stefna síðan að því að sameina verslunarrekstur sinn í áföngum og ljúka því verkefni að fullu á næsta ári.

Markmið með samstarfinu er að tryggja kaupfélögunum hagkvæman rekstur til hagsbóta fyrir félagsmenn sína og aðra viðskiptavini og efla um leið verslunarrekstur samvinnumanna á Íslandi.

Í samstarfssamningnum er meðal annars kveðið á um að Kaupfélag Suðurnesja og Kaupfélag Borgfirðinga verði í samstarfi við Samkaup hf., og eftir atvikum fleiri kaupfélög, um rekstur félagsmanna- og styrktarkerfis. :

Gert er ráð fyrir að Samkaup hf. selji Borgarnes Kjötvörum ehf. Kjötsel og jafnframt verði gengið frá viðskiptasamningi Samkaupa við Borgarnes Kjötvörur.