*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 3. júní 2020 16:42

Seðlabankinn greip inn í á ný

Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn í dag til að vinna gegn styrkingu krónunnar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins greip Seðlabankinn inn í gjaldeyrismarkaðinn í dag til að vinna gegn styrkingu krónunnar. 

Krónan styrktist gagnvart öllum helstu myntum á markaði í dag og hefur ekki verið sterkari gagnvart evru síðan um miðjan mars. Aðilar á markaði sem Viðskiptablaðið ræddi við segja að mikil sala hafi verið á gjaldeyrismarkaði í dag sem hafi ýtt undir styrkingu krónunnar. 

Krónan styrktist um 1,52% gagnvart evru en ein evra kostar nú um 148 krónur en evran fór hæst í tæplega 160 krónur í byrjun maí. Síðan þá hefur krónan styrkst um 7% gagnvart evru. Nú stendur dollarinn í 132 krónum en krónan hefur styrkst um 1,98% gagnvart dollar það sem af er degi. Þá hefur hún styrkst um 1,64% gagnvart pundinu. Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku að Seðlabankinn hafi einnig gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn. 

Seðlabankinn hefur gefið út að inngrip hans á gjaldeyrismarkaði miði að draga úr sveiflum á gengi krónunnar.