Seðlabanki Íslands hefur ekki viljað veita slitastjórn gamla Landsbankans undanþáguheimild frá lögum um gjaldeyrismál svo hægt sé að greiða erlendan gjaldmiðil út til forgangskröfuhafa. Um er að ræða yfir 200 milljarða króna sem féllu til eftir 12. mars 2012.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að slitastjórn gamla Landsbankans hafi ekki talið tímabært að tjá sig um málið en kröfuhöfum verður gerð grein fyrir stöðu mála á kröfuhafafundi þann 30. maí næstkomandi. Þá sé óvíst hvort Seðlabankinn muni veita þrotabúinu undanþáguheimild fyrir slíkum útgreiðslum, sem eru einkum tryggingasjóðir innistæðueigenda í Bretlandi og Hollandi, á meðan ekki hafi tekist að semja um endurfjármögnun eða lengingu á erlendum skuldabréfum milli gamla og nýja Landsbankans.