Í riti átta hagfræðinga Seðlabanka Íslands, þar á meðal aðstoðarbankastjórans Arnórs Sighvatssonar, segir að lyfjafyrirtækið Actavis skuldi „eiganda sínum“ upphæð sem nemur 70% af landsframleiðslu Íslands.Skýrslan ber heitið „Hvað skuldar þjóðin?“

Í greininni segir m.a.: „Auk vafa sem ríkir um endanleg áhrif uppgjörs þrotabúa fjármálafyrirtækja er staða margra fyrirtækja með umtalsverðar skuldir tvísýn. Eitt einstakt fyrirtæki, Actavis, skuldar t.d. eiganda sínum sem nemur 70% af landsframleiðslu Íslands.“

Samkvæmt upplýsingum frá Actavis er fyrirtækið enn í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar í gegnum móðurfélag sem skráð er erlendis. Viðskiptablaðið leitaði upplýsinga hjá Ragnhildi Sverrisdóttur, talsmanni Björgólfs Thors um hvort skuldir Actavis séu við félög í hans eigu. Hún vildi ekki tjá sig um málið. Hún sagði trúnað ríkja um fjárhagslega endurskipulagningu Actavis.

Í skýrslu hagfræðinga Seðlabankans stendur um Actavis:

„Auk vafa sem ríkir um endanleg áhrif uppgjörs þrotabúa fjármálafyrirtækja er staða margra fyrirtækja með umtalsverðar skuldir tvísýn. Eitt einstakt fyrirtæki, Actavis, skuldar t.d. eiganda sínum sem nemur 70% af landsframleiðslu Íslands. Að því gefnu að fyrirtækið haldi áfram starfsemi hérlendis ætti arður af erlendri starfsemi þess að standa undir vaxtagreiðslum af láninu, en um er að ræða svokallað kúlulán þar sem áfallnir vextir bætast við höfuðstólinn.

Hins vegar eru nær allar tekjur fyrirtækisins í erlendum gjaldmiðlum og skuldirnar einnig. Fyrirtækið færi því ekki í gegnum íslenskan gjaldeyrismarkað með fjármuni nema innlendur rekstrarkostnaður verði umfram tekjur fyrirtækisins af sölu hér á landi. Þetta mun tæplega breytast þótt fyrirtækið lendi í umtalsverðum greiðsluvanda. Til langs tíma litið má því ætla að skuld við erlendan eiganda fyrirtækis sé fyrst og fremst vandi skuldarans sjálfs og erlendra lánardrottna hans sem gæti í tilviki greiðsluerfiðleika lyktað með lækkun á skuldastöðu þjóðarbúsins.“

Í neðanmálsgrein er tekið fram að upplýsingarnar um Actavis eru birtar með góðfúslegu leyfi félagsins:

„Tekið skal fram að upplýsingar um áhrif Actavis á hreina stöðu og mældan viðskiptajöfnuð eru birtar með góðfúslegu leyfi Actavis. Almennt ríkir trúnaður um gögn einstakra fyrirtækja sem safnað er af Seðlabanka Íslands til hagskýrslugerðar í samræmi við verklagsreglur um hagskýrslugerð. Við birtingu gagna er þess jafnan gætt að ekki sé unnt að rekja upplýsingar til einstakra aðila. Vegna eðlis og mikilvægis gagna frá Actavis hf. fyrir umfjöllunarefni þessarar greinar var leitað eftir samþykki forráðamanna félagsins til að aðgreina félagið sérstaklega frá heildartölum þar sem uppgjör á skuldum félagsins er milli tengdra aðila og snertir því ekki íslenskt þjóðarbú með beinum hætti.“