Stjórnarformaður vinnuvélaframleiðandans JCB segir að Bretar eigi ekki að óttast afleiðingar þess ef landið gengur úr Evrópusambandinu. Eitt af loforðum David Cameron, formanns Íhaldsflokksins í Bretlandi, var að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð landsins innan sambandsins fyrir árslok 2017.

„Við erum fimmta eða sjötta stærsta hagkerfi heims. Við gætum lifað ein á báti, friðsamlega og skynsamlega,“ sagði Anthony Bamford í samtali við BBC. Segir hann að fari Bretland úr sambandinu gæti það samið upp á eigin spýtur í stað þess að gera það í hópi 27 annarra ríkja.

Cameron vill semja upp á nýtt um stöðu Bretlands innan ESB og segir í frétt BBC að um 55% meðlima breska viðskiptaráðsins sé fylgjandi einhvers konar endurskilgreiningu á Evrópusambandinu og stöðu Bretlands innan þess.