Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegsmála, segir að samningar sem náðust í gær milli Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja feli í sér veiðar langt umfram ráðgjöf. Mælt hafi verið með veiðum á 890 þúsund tonnum en samkomulagið feli í sér veiðar á 1.049.000 tonnum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu frá Sigurði Inga vegna málsins.

„Á síðustu fundum hefur Ísland m.a. lagt enn frekar af mörkum til að greiða fyrir samkomulagi. Ég tel það ljóst að Noregur hafi aldrei ætlað að semja um þann hlut sem Ísland getur sætt sig við né um veiðar á grundvelli ráðgjafar. Það var því smjörklípa þeirra á síðasta strandríkjafundi að ræða veiðar Grænlendinga og hvernig mætti koma í veg fyrir að Grænland geti nýtt það tækifæri sem við þeim blasir með aukinni göngu makríls í þeirra lögsögu til að byggja upp sínar fiskveiðar. Þetta leiddi m.a. til þess að ESB hvarf frá því samkomulagi sem Ísland og ESB höfðu og Noregur gat þar með komið í veg fyrir samning á þeim grundvelli og náð fram sinni kröfu um veiðar meira en helming fram úr ráðgjöf,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðherra bendir á að Ísland og Færeyjar hafi setið undir hótunum ESB um beitingu viðskiptaþvingana og ásökunum um ofveiði. Sigurður Ingi segir það vera með öllu ljóst að þær hótanir haldi ekki, fyrir utan að vera ólögmætar þá sé sá samningur sem hér er til umræðu byggður á niðurstöðu sem leiði til ofveiði og ESB skrifar undir.  Það væri því tvískinnungur að ætla að halda áfram hótunum um viðskiptaþvinganir á grundvelli ofveiði. „Við höfum hins vegar alltaf lagt áherslu á samkomulag sem fylgir vísindalegri ráðgjöf," bætir Sigurður Ingi við. .

Engin ákvörðun hefur verið tekin um leyfilegan heildarafla íslenskra skipa en hún mun verða tekin á næstu vikum.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um leyfilegan heildarafla íslenskra skipa en hún mun verða tekin á næstu vikum.