Sveinbjörn Eyjólfsson, sveitarstjórnarmaður Borgarbyggðar, segir skýringar sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrarsýslu varðandi lánveitingar sparisjóðsins til hlutafjárkaupa í Icebank vera í besta falli villandi og í versta falli ósannar. Hann segir fráleitt að sparissjóðsstjóri komi sér undan ábyrgð með því að vísa í bankaleynd.

Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrarsýslu hefur að sögn Sveinbjarnar frá upphafi skýrt milljarðs króna lán til hlutafjárkaupa í Icebank á þann veg að það hafi verið veitt til lykilstjórnenda bankans. Í svari sparissjóðsstjóra til Sveinbjarnar, sem lagt var fyrir fund byggðarráðs Borgarbyggðar í gær, segir að ekki sé hægt að veita umbeðnar upplýsingar vegna bankaleyndar. Upplýsingarnar sem um ræðir er í fyrsta lagi hversu stór hluti lánsins hafi farið til lykilstjórnenda Icebank, í öðru lagi hve stjór hluti hafi farið til stjórnarmanna í Icebank og í þriðja lagi hve stór hluti hafi farið til annarra fjárfesta.

Sveinbjörn segir í bókun sinni frá fundinum að það sé óþolandi að sveitarstjórnarmenn geti ekki fengið nefndar upplýsingar og fráleitt að sparisjóðsstjóri komi sér undan ábyrgð með því að vísa í bankaleynd.

Þetta kemur fram í frétt Skessuhorns.