Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir ríkið ekki geta samið langt umfram almenna markaðinn í yfirstandandi kjarasamingum við kennara. Þetta kom fram í viðtali við hann í Sunnudagsmorgni hjá Gísla Marteini í morgun. Þótt Illugi telji ekki að deilan verði leyst um helgina þá skynji hann að samningum miði áfram og að mikill vilji sé beggja vegna borðsins að leysa hana sem fyrst. „Það er nauðsynlegt að gera kerfisbreytingar svo að svigrúmið aukist til launahækkana,“ sagði Illugi.

Í viðtalinu ítrekaði Illugi að róttækra breytinga væri þörf í menntakerfinu. „Efnahagsleg framtíð þjóða byggir í æ ríkari mæli á menntun. Ef við ætlum að búa við svipuð lífskjör og annars staðar þá verður menntakerfið okkar að vera svipað. Það er ekki nema 44% af árgöngum sem klára á tilsettum tíma sem er mjög lágt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Við þurfum að tryggja að stærri hluti tileinki sér námið en síðan þarf að endurskoða hvað er verið að gera til að undirbúa nemendur fyrir háskólanám. Ef nemendur klára skóla fyrr þá er líklegra að ævitekjur þeirra verða hærri til framtíðar. Aðalatriðið er það að undirbúningur okkar nemenda sé að minnsta kosti jafn góður og í löndunum sem við berum okkur saman við.“