Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, seldi í gær 31% hluti sinn í pólska fjarskiptafélaginu Netia.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters en Netia er næst stærsta fjarskiptafélagið í Póllandi.

Fram kemur i frétt Reuters að 118 milljónir hlutir í félaginu hafi skipt um hendur í Kauphöllinni í Varsjá í gær í 28 viðskiptum en heildarvelta með bréf í félaginu nam í gær um 158 milljónum dala. Þá hefur Retuers eftir ónafngreindum verðbréfasölum að Novator hafi selt hlutina.

Þá kemur einnig fram í fréttinni að frá efnahagshruninu í október hafi Novator leitað leiða til að losa um hluti sína í Netia og eins í P4, fjórða stærsta fjarskiptafélagi Póllands.

Í desember síðastliðnum bauðst annað pólskt fjarskiptafélag, Mini til að kaupa hlut Novator í Netia. Piotr Majchrzak, forstjóri Mini neitar því þó í samtali við Reuters að félagið hafi keypt bréfin í gær.