*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 25. júlí 2020 14:26

Segja ásakanir formanns VR ósannar

Halldór Benjamín Þorbergsson og Davíð Þorláksson segja ásakanir formanns VR ósannar.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Haraldur Guðjónsson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppbishæfnisviðs SA, segja ásakanir formanns VR, Ragnars Þórs Ingólfssonar, í þeirra garð ósannar. Þetta kemur fram í bréfi sem þeir birtu á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins. 

"Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR lét þau orð falla nýverið í samtali við Fréttablaðið að hann telji margt benda til þess að undirritaðir, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá SA, hafi beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjármögnuðu kaup Icelandair á 50% hlut í Lindarvatni, eiganda Landssímareitsins. Ef þetta væri satt þá ætti gagnrýni Ragnars svo sannarlega rétt á sér, en þetta er ekki satt. Við munum nú rekja það í nokkrum liðum af hverju ekkert af því sem Ragnar heldur fram fær staðist.," segir í bréfinu.

Þá segir jafnframt að Halldór og Davíð hafi ekki verið ráðnir til samtakana þegar umrædd endurfjármögnun Lindarvatns hafi átt sér stað í mars 2016. 

"Í öðru lagi myndi engum hjá SA, né Icelandair eins og við þekkjum það fyrirtæki, detta í hug að beita lífeyrissjóði þrýstingi þegar kemur að fjárfestingaákvörðunum þeirra. Það væri enda bæði ólöglegt og ósiðlegt. Þessi mörk eru skýr og óbrjótanleg í huga flestra og í landslögum."

Þeir segja ennfremur að þá lífeyrissjóðrinir hafi ekki fjármagnað kaup Icelandair á Lindarvatni árið 2015, eins og Ragnar fullyrðir. Kaupin voru að fullu fjármögnuð af Icelandair Group sjálfu og án aðkomu lífeyrissjóða.