Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa hafnað beiðni grísku ríkisstjórnarinnar um að björgunaráætlun fyrir ríkið, sem rennur út á þriðjudaginn, verði framlengd. Kemur þetta fram í frétt BBC.

Í yfirlýsingu frá ráðherrunum segir að Grikkir hafi einhliða slitið viðræðum um nýja björgunaráætlun með því að lýsa því yfir að halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjar tillögur lánadrottna. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, kom flestum á óvart með þessari yfirlýsingu í gær.

Á þriðjudaginn þarf gríska ríkið að greiða um einn og hálfan milljarð evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en fátt bendir til að þetta fé sé til í sjóðum ríkisins. Verði greiðslufall gæti Grikklands hrökklast úr evrusamstarfinu með alvarlegum efnahagslegum afleiðingum.

Í yfirlýsingu ráðherranna segir að þeir væru staðráðnir í að viðhalda styrkleika og trúverðugleika evrusvæðisins. Það væri svo undir evrópska seðlabankanum komið hvort hann muni halda áfram að veita gríska bankakerfinu fjárhagslega neyðaraðstoð.