„Íbúðalánasjóður er farinn að leigja út sínar eignir án þess að nota til þess löggilta leigumiðlara. Í 15. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994 kemur fram að þeim einum sem hlotið hafa til þess sérstakt leyfi velferðarráðherra sé heimilt að reka miðlun með leiguhúsnæði í því skyni að koma á leigusamningi eða annast framleigu eða skipti á leiguhúsnæði. Í lögunum segir einnig að starfsheiti þess sem rækir leigumiðlun sé leigumiðlari og jafnframt er skilgreint hvað í heitinu felst.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félagi löggiltra leigumiðlara (FLL). Í tilkynningunni segjast leigumiðlarar ósáttir við vinnubrögð Íbúðalánasjóðs en sjóðurinn hyggst nú leigja út fasteignir sínar sjálfur í gegnum leigufélag sem sjóðurinn hyggst stofna. Áður stóðu yfir viðræður milli FLL og Íbúðalánasjóðs um hvernig best væri að leigja út eignir sjóðsins sem í tilkynningunni segir að hafi verið í því skyni að skekkja ekki samkeppni á markaðnum. „Skyndilega var þeim viðræðum hætt af hálfu Íbúðalánasjóðs og tilkynnt að Íbúðalánasjóður ætli að leigja eignirnar út sjálfur. “

„Þó svo að Íbúðalánasjóður geti ráðið sér löggiltan leigumiðlara til að leigja út eignirnar þá er yfirburðastaða sjóðsins þannig að verið sé að leggja niður heila starfstétt. Væri það álíka og að Íbúðalánasjóður myndi ákveða að selja allar eignir sjálfur sem á eru lán frá sjóðnum í stað þess að lögg. fasteignasalar myndu selja þær. Slík ríkisvæðing sé mjög varasöm og óeðlileg,“ segir í tilkynningunni.

Þá segja leigumiðlararnir að sú verðlagning íbúða hjá Íbúðalánasjóði sem nú er farið að auglýsa sé ekki í takt við það sem almennt gerist á markaði. Sjóðurinn verðleggi á lægra verði.

„Þó svo að lágt leiguverð sé mörgum að skapi þá er töluverð hætta á að áhrifin verði slæm fyrir fasteignaeigendur/leigusala almennt sem eru í samkeppni við sjóðinn. Leiguverð og fasteignaverð er nátengt og með því að keyra niður leiguverð mun það hafa áhrifa á söluverð fasteigna.“